Grunnskólaúrræði fyrir börn með aukna stuðningsþörf

Nemendur okkar eru börn sem þrífast ekki í almennum grunnskóla eða í sérdeild síns heimaskóla. Þeir þurfa þá meiri þjónustu en boðið er upp á og eru oftast komnir með mjög skerta stundatöflu og/eða hafa einangrast frá öðrum nemendum. Nemendurnir hafa oft verið lítið í skóla út af vanlíðan sem brýst út í skólaforðunarhegðun eða öðrum hegðunarvanda.

Hugmyndafræði Suðurbæjarskóla

Suðurbæjarskóli starfar eftir hugmyndafræðinni tengslamyndandi nálgun. Lögð er áhersla á að starfsfólk hafi þekkingu og færni til að setja hegðun í merkingarbært samhengi. Til að ná því markmiði sendum við starfsfólk reglulega á námskeið og fáum sérfræðinga til að koma inn með fræðslu. Innan ramma tengslamyndandi nálgunar er leitað að því hvað í umhverfi barns gæti verið að valda vandamálahegðun og vanlíðan þess.

“Tengslamyndandi nálgun felur í sér að stuðningsfulltrúar og kennarar sýni umhyggju, hlýju og skilning í samskiptum og snýst um hvernig þeir hugsa um og bregðast við þörfum nemenda.”

Lítið og heimilislegt skólaumhverfi

Skólaumhverfi Suðurbæjarskóla er lítið og heimilislegt sem hentar vel börnum sem þykir hefðbundið skólaumhverfi yfirþyrmandi.

Einstaklingsmiðað nám

Nám allra nemanda tekur mið af þörfum hvers og eins þar sem hverjum nemanda er mætt þar sem hann er staddur með tilliti til þroska og áhuga.

Samstarf með foreldrum

Haldnir eru reglulegir teymisfundið með foreldrum og teymi nemanda.

Sérþekking á vanda

Í Suðurbæjarskóla starfa sérkennari, þroskaþjálfi, atferlisfræðingur og sálfræðingur sem veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf.

Skólaumhverfi

Nemendur með skynjunarvanda eða fatlanir eiga oft auðveldara með að fóta sig í rólegu umhverfi (Emily McDougal, Deborah Riby, Mary Hanley (2020) – Teacher insights into the barriers and facilitators of learning in autism). Við leggjum því mikla áherslu á að umhverfi nemenda sé lítið og að þeir geti leitað í ró yfir skóladaginn ef þeir telja sig þurfa smá hlé frá samnemendum.

Áður en kennsla hefst

Með leyfi forráðamanna sest sálfræðingur ásamt atferlisfræðingi frá okkur niður með aðila sem hefur starfað með nemendanum í að minnsta kosti eitt til tvö ár í skólanum sem hann var í áður en skipulag okkar í kringum nemenda er sett upp. Tekið er staðlað viðtal þar sem farið er yfir helstu áhugamál nemandans, þau vandamál sem voru til staðar, hvernig kennaranum eða stuðningsfulltrúanum fannst best að taka á þeim og einnig hvað þeim fannst virka illa. Viðtalið er opið og tekur um eina klukkustund. Einnig er tekið viðtal við forráðaaðila nemanda, til viðbótar eða eingöngu ef enginn hefur starfað með nemandanum.

Kennslan í Suðurbæjarskóla

Suðurbæjaskóli starfar eftir aðalnámskrá grunnskóla en stuðst er við fjölbreytta og einstaklingsmiðaða kennsluhætti. Kennslan er aðlöguð að þörfum og styrkleikum nemenda, kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og taka mið af áhugasviði hvers og eins. Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir hvern og einn nemenda þar sem kennslumarkmið koma fram. Einstaklingsnámskráin er löguð að að færni og getu hvers nemenda og er í stöðugri þróun eftir því sem líður á. Í einstaklingsnámskrá er miðað við grunnþætti menntunar eins og kemur fram í aðalnámskrá grunnskólanna.

  • Unnið með athafnir daglegs lífs og/eða tjáningarörðuleika og vanlíðan sem geta brotist fram í vandamálahegðun.
  • Kerfið sett upp af sálfræðingi í samvinnu við klínískan atferlisfræðing, nemanda og kennara í samráði við teymi nemenda.

Styðjandi stýring árásargjarnar og eyðileggjandi hegðunar (GRAD nálgunin)

Áhersla er á að umhverfi nemanda sé rólegt og skipulagt og að starfsfólk fái mikla sértæka þjálfun.

Notaðar eru fyrirbyggjandi aðferðir svo ekki sé aðeins verið að taka á „krísuástandi“

    • Samskiptaþjálfun

    • Félagsfærniþjálfun

    • Tímar hjá sálfræðingi (vikulega eða oftar eftir þörfum nemenda) 

    • Virknimat og kveikjur

Starfsmenn passa sig að benda nemendum á það þegar þeir hegða sér vel (e. catch them being good) í stað þess að benda þeim bara á óæskilega hegðun. Unnið með athafnir daglegs lífs og/eða tjáningarörðuleika og vanlíðan sem geta brotist fram í vandamálahegðun. Kerfið sett upp af sálfræðingi í samvinnu við klínískan atferlisfræðing, nemanda og kennara í samráði við teymi nemenda

Íþrótta og sundkennsla

Fjölbreytt íþróttakennsla sem er skipulögð af íþróttakennara fer fram bæði innan- og utandyra og tekur mið af áhuga og færni nemenda. Reynt er að hafa íþróttakennsluna bæði fjölbreytta og skemmtilegas og hún er einnig nýtt til að þjálfa hópefli og félagsfærni nemenda.

Suðurbæjarskóli er með sundkennara á sínum vegum sem þjálfar nemendur í sundlaug í Hafnarfirði. Hópurinn fer saman í sundkennslu en kennslan tekur mið af aldri og færni hvers og eins nemenda. Stuðningsfulltrúar fylgja nemendum í sund og eru þeim til halds og trausts undir handleiðslu sundkennara.

Aðlögun í hverfisskóla

Markmið Suðurbæjarskóla er að styrkja nemendur og gera þá tilbúna til að fara aftur í sinn heimaskóla, hvort sem að það sé í sérúrræði eða í hefðbundna kennslustofu.

Aðlögunin er einstaklingsmiðuð og unnið er með teymi hvers nemenda til að meta hvort og hvenær hann er tilbúinn að fara aftur í heimaskólann sinn. Nemendur hafa oftast byrjað í verkgreinum og/eða matmálstímum og frímínútum í heimaskólanum og það er svo metið jafnt og þétt hvort að nemandi sé reiðubúinn að vera í fleiri tímum.

Stuðningsfulltrúi frá Suðurbæjarskóla fer með nemanda í heimaskólann og metið er hvort stuðningsfulltrúinn sé með í kennslustofunni eða sé til reiðu annars staðar í skólanum. Með tímanum er notað fjörun (e: fading) stuðningsfulltrúa úr skólanum og þá hafa kennarar í heimaskóla og nemandi aðgang að stuðningsráðgjafanum ásamt kennara Suðurbæjarskóla símleiðis. Þetta á sér stað í samráði við teymi nemanda og þegar að færni hans er komin á það stig að ekki er talin þörf á að stuðningsfulltrúi sé með honum í kennslustund. Meti teymi nemanda sem svo að hann sé ekki tilbúinn til að snúa aftur í almennan grunnskóla er þetta skref ekki tekið. 

Hafðu samband

Hafðu endilega samband til að fá að vita meira um Suðurbæjarskóla

Okkar þjónusta

Sérfræðiþekking

Við erum með margra ára reynslu af starfi með börnum sem þurfa sérstakan stuðning í skóla

Áhrifaríkar aðferðir

Aðferðir okkar byggja á gagnreyndum aðferðum sem sýna árangur.

Betri líðan í skóla

Okkar markmið byggir fyrst og fremst á að nemendur upplifi vellíðan í skóla.

Scroll to Top